Tilkynningar

Friday, 16. March 2012

Jónsvika

Ágæti myndlistarmaður

Jónsvika – vinnuvika listamanna í Kaldbak dagana 11. – 17. júní, auglýsir eftir þátttakendum.

Jónsvika er vinnuvika u.þ.b. 10 manna hóps listamanna dagana 11. – 17. júní. 2012.

Vinnuvikan fer fram í Kaldbak sem er um 1,5 km fyrir utan Húsavík. Húsið er 180 fm einbýlishús með 6 svefnherbergjum, svefnloft, eldhús, 2 klósettum og 2 stofum. Nokkrum metrum frá einbýlishúsinu er gamalt hesthús, súrheisturn, haughús, hlaða og “fjós” sem verður notað sem vinnuaðstaða.

Yfir vinnuvikuna verður listamönnunum boðin ókeypis gisting í Kaldbak, aðgangur að vinnustofu og tækjum í Kaldbak, auk morgunmatar og kvöldmatar hvern dag. Skipuleggjendur og Norðurþing, jafnt sem íbúar Húsavíkur, munu einnig aðstoða eftir fremsta megni við öflun hráefna í verkin. Listamenn þurfa að koma sér sjálfir á Kaldbak sunnudagskvöldið 10. júní og fara 17. júní.

Engin sérstök áhersla mun vera fylgt í listsköpuninni og enginn sérstakur rammi settur utan um sýninguna, nema sá samþætti innblástur sem listamennirnir verða fyrir við dvöl sína á Húsavík – innblástur frá náttúrunni, fólkinu og samfélaginu á Húsavík. Þannig er bæði mælt með því og á móti að koma með fyrirfram hugmyndir á staðinn. Frelsi til listsköpunar er því nánast algert en þó skal fylgja ákveðinni dagskrá, sem verður þó vel sniðin að stuttum tíma og þörfum listamannanna.

Hver morgun mun hefjast með stuttri kynningu/ fyrirlestri / æfingum sem verður ákveðið veganesti inn í daginn. Til að mynda stendur til að fá heimamenn til að miðla reynslu sinni og lífstíl til hópsins, hefja daginn á Kundalini yoga, fara í vettvangsheimsóknir í endurvinnsluna, trésmíðaverkstæði, stálsmíðaverkstæði og í fiskveiðibáta og fá aðra skemmtilega karaktera og áhugaverða kandídata til að róta upp í hugum hópsins og vonandi þannig veita öllum hópnum nýja sýn og framlag til listsköpunar.

Vinnuvikan endar svo á laugardeginum 16. júní með sýningu. Sýningin mun opna í Kaldbak á laugardeginum kl. 15.00 og standa fram að kvöldmat. Eftir kvöldmat, eða kl. 21.00, mun tónleikadagskrá taka við.

Umsækjendur skuli senda umsókn um þátttöku með e-maili til frafl@frafl.is eigi síðar en 10. apríl n.k. Umsókninni skal fylgja ferilskrá, auk sýnishorna af amk 4 verkum og stuttrar lýsingar á framtíðarstefnu og sýn. Athugið að ekki er skilyrði að viðkomandi sé myndlistarmenntaður eða stundi nám í myndlist þó slíkur áhugi, þekking og hæfileiki sé auðvitað kostur.

Virðingarfyllst,

skipuleggjendur Jónsviku