Tilkynningar

Wednesday, 27. April 2011

FRAFL í Bast Magazine

Grein um FRAFL birtist nýverið í nýjasta tímariti Bast Magazine, sem er tímarit stofnað af þremur Íslendingum búsettum í Kaupmannahöfn. Tímaritið kemur út rafrnt mánaðarlega og fjallar um listir, tísku, tónlist, kvikmyndir og menningu. Greinina skrifaði Shauna Lorel Jones, listfræðingur búsett í Reykjavík. Shauna segir frá tilkomu og stefnu FRAFL í heimi myndlistar og snertir sérstaklega á þeirri nýju þjónustuleið sem FRAFL hefur fært listamönnum – að frafla.

www.e-pages.dk/bastmagazine/19/28
www.bast-magazine.com/

 
Tuesday, 12. April 2011

Innlegg vikunnar – Ásdís Ólafsdóttir

Þú ert sjálfstætt starfandi listfræðingur, búsett í París. Hver eru þín helstu verkefni um þessar mundir?

Ég er forstöðumaður í u.þ.b. hálfri stöðu hjá Maison Louis Carré, sem er eina byggingin sem Alvar Aalto teiknaði í Frakklandi fyrir þarlendan listaverkasala og safnara. Þetta er afskaplega fallegt hús sem er enn búið húsgögnum og innréttingum arkitektsins og er opið almenningi um helgar. Það eru ýmsar uppákomur í húsinu eins og tónleikar, málþing o.fl. Ég er einnig að vinna að stórri grein um norræna hönnun sem ég var beðin um að skrifa í bók um hönnun eftir 1945 og verður gefin út hér í París. Á frönskum vettvangi vinn ég sem sagt að því að koma á framfæri og upplýsa fólk um það sem er að gerast á Norðurlöndum, og svo er ég reglulega í verkefnum á Íslandi. Þetta er fín blanda og gaman að geta hoppað milli staða og viðfangsefna. Kosturinn á Íslandi er að manni leyfist góðfúslega að fara milli greina og er síður bundinn á ákveðinn bás; Frakkar geta kennt okkur nákvæmni og fagleg vinnubrögð.

Hvernig hófst þú þinn feril á sviði listfræði?

Ég lærði listasögu í Frakklandi og vann með náminu hjá listfræðingi sem heitir Andréi Nakov og er sérfræðingur í Malewicz. Hann kenndi mér margt sem tengist faginu. Eftir námið starfaði ég m.a. í tvö ár hjá nefnd á vegum franska ríkisins sem rannsakaði stuld á listaverkum frá Gyðingum í heimsstyrjöldinni síðari. Þar sem doktorsritgerðin mín snerist að miklu leyti um húsgögn Alvars Aalto var ég einnig fljótlega í sambandi við Aalto Foundation í Finnlandi og vann með þeim að útgáfu bóka o.fl. Ég stofnaði á sínum tíma félag listfræðinga í norrænni list (CHAN) sem gefur út tímaritið ARTnord. Ég hef alltaf skrifað um hönnun og myndlist, bæði í París og á Íslandi, og tók þátt í ritun íslenskrar listasögu sem á að koma út í haust. Undanfarin ár hef ég gefið mig í ríkari mæli að sýningarstjórnun, en þar finnst mér nýtast vel sú reynsla sem ég hef sankað að mér úr ýmsum áttum.

Myndlistartímaritið ARTnord er að fara af stað með stóra farandsýningu um norræna hljóðlist. Getur þú sagt aðeins frá henni? Munu fleiri Íslendingar taka þátt í verkefninu?

Þetta er skemmtilegt verkefni sem miðast að því að sýna það sem er að gerast á sviði hljóðlistar í útjaðri Norðurlanda, þ.e. Lapplandi, Færeyjum, Íslandi, Grænlandi og Norður-Kanada. Sýningin mun fara af stað 2012 og verða á alla vega fjórum stöðum, í Svíþjóð, Íslandi, Fogo Island í Kanada og Frakklandi, og ef til vill víðar. Tímaritið gefur síðan breiðari mynd af norrænni og eystrasaltneskri hljóðlist. Á Íslandi erum við í samvinnu við Listasafn Árnesinga og Listaháskóla Íslands, svo og ýmsa góða listamenn og listfræðinga. Víðáttan er þema sýningarinnar og vona ég að okkur takist að koma því til skila á hljóðrænan og sjónrænan hátt.

Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur

www.artnord.fr

www.maisonlouiscarre.fr

 
Wednesday, 6. April 2011

Yfirlýsing listamanns – Solveig Pálsdóttir

Þörfin til að skapa er eðlislægt varnarviðbragð við myndrænu áreiti umhverfisins. Allt sem okkur ber fyrir augu verðum við að finna stað innan huga okkar. Listamaðurinn gerir þetta rétt eins og allir aðrir en verður vegna óútskýranlegrar hvatar að koma því aftur frá sér í öðru formi, og í gegnum framsetningu ljá því anda sinn og boðskap. Hlutverk listamannsins er því að mörgu leyti líkt og seiðkarls eða nornarættbálks. Þau deila sýnum sínum, vangaveltum og spám með ólíkum aðferðum til áhorfendans. Listamenn reyna að holdgera andartakið, búa til skurgoð, byggja altari, framkalla táknþrungnar athafnir í tilraun til að eiga í samtali við meðvitund sína sem og áhorfandans. Sumir fá engu viðráðið, sköpunarþörfin heltekur þá, er tungldýrið þeirra og svartur förunautur sem aldrei er sáttur. Flestir fara í ferðalag; gera sitt besta en þora eða nenna ekki fram á brúnina, á meðan örfáir hrapa fram af. Á meðan þrífast aðrir í sköpuninni, og hún veitir þeim kyrrð, ró og jafnvel einhverskonar skilning á sköpunarverkinu. Til þess að öðlast þann skilning verður listamaðurinn að hluta niður heildarmyndina til þess að greina andartakið eða efnið og öðlast betri skilning og sýn á stöðugt breytilegri heildarmynd. Tilgangur listsköpunar er miðlun hugmynda, en því fylgir ábyrgð. Hugmyndir eru hættulegar og er listsköpun hið fullkomna vopn.

Solveig Pálsdóttir