Tilkynningar

Monday, 28. March 2011

Innlegg vikunnar – Birgir Sigurðsson

Þú ert menntaður rafvirki og starfandi myndlistamaður og rafvirki, hvernig á þetta tvennt saman?

Ákvörðunin um að mennta mig sem rafvirki var tekinn löngu áður en ég fékk áhuga á myndlist. Ég hafði  átt myndir  á skólasýningum í barnaskóla, en myndlist var ekki nálægt mér sem barn eða unglingur. Ég starfaði sem rafvirki í mörg  ár eftir sveinspróf, en myndlistaráhugi minn kviknaði þegar ég flutti til Exeter í Englandi og fór að stunda jóga og fleira til að efla tenglsin við sjálfan mig. Þar uppgvötvaði ég myndlistarmanninn í fyrsta sinn og síðan þá hefur myndlist verið stór partur af lífi mínu. Samvinna myndlistarmannsins og rafvirkjans hefur skapað það sem ég er í dag. Til dæmis hefur rafvirkinn stutt myndlistarmanninum fjárhagslega og gert starf  hans auðveldara. Myndlistarmaðurinn hefur því fengið að vaxa og gera tilraunir með allskonar miðla  án þess að hafa áhyggjur af fjárhagnum. Á móti hefur myndlistarmaðurinn gefið rafvirkjanum fullt af frábærum mómentum og samskiptum við fullt af fólki sem annars hefðu ekki komið til.
Hápunkturinn í samstarfi þeirra til þessa er verkið Rafvirki 123, en það gengur út á að finna listrænanan flöt á starfi rafvirkjans. Myndlistarmaðurinn dansar þar hreyfingar rafvirkjans, býr til ljóð úr listum yfir rafmagnsefni í eitt hús og notar vinnufötin í innsteningu.


002 Gallerí er staðsett í heimahúsi og rekið af rafvirkja, getur þú sagt frá hugmyndinni á bak við galleríið?

Upprunalega hugmyndin kviknaði í febrúar 2010 og þá sem stök sýning í íbúð minni með þeim listamönnum sem höfðu verið mér hvatning og fyrirmynd í myndlistinni, eins konar þakklætisvottur til þeirra. Hugmyndin þróaðist síðan yfir í stofnun heimagallerís, sem opnaði formlega laugardaginn 2. október 2010, þegar menningarfulltrúi Hafnarfjarðar Marin Hrafnsdóttir klippti á borða og opnaði 002 Gallerí með sýningu 11 listamanna, sem allir féllu undir áðurnefnda skilgreiningu.
Nú í mars lauk fyrsta sýningarári 002 Galleríis. Sýningarnar fimm gáfu hugmyndinni fljúgandi start og staðfesti að það er grundvöllur fyrir svona heimagalleríi. Styrkur þess liggur í meiri nálægð milli listaverka, listamanna og áhorfenda. Hver sýningin stendur aðeins eina helgi og eru þær fyrstu helgina í hverjum mánuði frá október til mars.
Ég sem myndlistarmaður hef mikið verið að vinna með hluti sem hafa fyrirfram ákveðna merkingu t.d. bíll = farartæki  + ljósskúlptúr / aðalnámskrá grunnskóla + tónverk = gjörningur. Íbúðin mín hefur núna þríþætt notkunargildi sem heimili = vinnustofa = gallerí.  Meðan á sýningum stendur flyt ég nánast öll húsgögnin út og geri þannig íbúðina að ca 60 fermetra sýningarrými. Sýningarnar fimm hafa verið mjög fjölbreyttar og hafa sumir listamennirnir gert verk beint á veggi gallerísins og íbúðin tekur því sífelldum breytingum, ekki bara sem sýningarrými heldur er íbúiðin hönnuð upp á nýtt með þessa þríþættu notkun í huga.

Eru áform um að halda áfram með reglulegt sýningarhald í 002 Gallerí á næstu misserum?

Samvinna 002 Galleríis við listamennina sem tóku þátt í fyrsta starfári 002 Galleríis var ógleymanleg og sama má segja um samskiptin við alla þá sem lögðu leið sína í Þúfubarðið á sýningarnar. Það gerði ákvörðunina að halda áfram mjög auðvelda. Núna er búið að skipuleggja 5 eða jafnvel 6 sýningar á næsta starfsári. Hver sýning hefur smá þema til að vinna útfrá til að gera fjölbreytnina sem mesta.  Ef ég tek dæmi um sýningar sem eru framundan: Pör í íslenskri myndlist, verður í nóvember 2011 og íslenskar myndlistarkonur, verða í febrúar 2012. Svo eru hugmyndir um að auka starfsemi 002 Galleríis í formi video-gjörninga á netinu. 002 Gallerí er sátt við sjálft sig og sitt nánasta umhverfi og hlakkar til að hefja nýtt starfsár í haust, nánar tiltekið laugardaginn 1. Október 2011. Hægt er að fylgjast með 002 Gallerí á Facebook síðu galleríissins og skoða myndir af sýningunum á síðunni  002Galleri@bloggspot.com

Birgir Sigurðsson; rafvirki = myndlistarmaður = galleristi

 
Monday, 21. March 2011

Innlegg vikunnar – Elísabet Brynhildardóttir

Þú útskrifaðist frá University College for the Creative Arts árið 2007 og hefur verið að sinna ýmsum verkefnum síðan þá, getur þú sagt aðeins frá því helsta?

Það er ýmislegt sem ég hef verið að bardúsa við, til dæmis nú nýverið myndskreytti ég barnabókina Þyngdaraflið. Síðan vann ég fyrstu, önnur og þriðju verðlaun fyrir forsíðu símaskrárinnar 2010 ásamt Önnu Ingólfsdóttur, sem var mjög skemmtilegt.

En þau verkefni sem mér finnst standa upp úr eru til dæmis sería af vídeóverkum sem við Selma Hreggviðsdóttir tókum sumarið 2008 víðsvegar um landið við ýmsar aðstæður og eru þau mér afar kær. Þetta varð mjög litríkur og stormasamur tími þar sem okkur tókst meðal annars að hálf drekkja hvor annari og heil-drekkja rándýrum upptökugræjum. Úr þessari seríu hafa komið ýmis vídeóverk sem hafa verið sýnd víða.

Verkið Sjógangur frá 2010 er mér kannski ferskast í minni, en það var unnið fyrir Reykjavíkurborg ásamt Lilju Birgisdóttur og Selmu Hreggviðsdóttur, og stendur partur af því enn við Slippinn. Þetta var innsetning, kóngablátt veggverk af sjó sem gengur á land og umbreyttist í mikinn efnivið sem tengdi saman nokkrar byggingar. Verkið var gert í miklu flýti, en aðal atraksjónið var fólgið í því að vinna við hliðin á Slippnum, í takt við slippara Stálsmiðjunnar. Það er allveg einstök orka sem fylgir takti manna sem slengja málningu á skipskrokka, fullir af krafti og smá töffaraskap.

Hvers vegna ákváðuð þið að stofna til útgáfu blaðsins Endemi?

Það er rík vöntun á umfjöllun um myndlist, sérstaklega sjónrænni umfjöllun um myndlist. Þó er þetta kraftmikil og dugleg sena þar sem alltaf er eitthvað í boði, alltaf eitthvað nýtt að gerast. Það var því kannski bara náttúruleg þróun að einhver tæki þetta upp á sína arma, en það voru líka aðrir áhrifavaldar.

Til dæmis kom út viðamikil alþjóðleg könnun í haust þar sem í ljós kom meðal annars að í íslenskum fjölmiðlum er fjallað um og talað við konur í u.þ.b. 28% tilvika. Þetta eru sláandi og hreinlega þreytandi tölur. Við (stofnendur Endemi) sáum bara að það þyrfti að gera eitthvað í þessu og þar sem við flestar störfum við myndlist ákváðum við að tækla þann vettvang og leggja okkar að mörkum við að rétta þessa skekkju. Hvers vegna ekki að stofna bara almennilegt tímarit sem skapar umfjöllun um myndlist og vettvang fyrir myndlistarkonur til að sýna verk sín?

Hugmyndin er sú að helmingur blaðsíðna Endemis séu lagðar undir tvívítt gallerý þar sem myndlistarkonum er boðið að taka yfir blaðsíðurnar og sýna verk sín á veglegum pappír og í stóru broti. Í því er fólgið ákveðið anarkí og verður mjög spennandi að sjá hvernig verkin púslast saman. Hinn helmingur hýsir síðan almennar umfjallarnir, viðtöl og aðrar vangaveltur tengdar myndlist.

Anarkí er kanski ekki eithvað sem maður tekur eftir í hinni íslensku tímaritaflóru. Íslensk tímarit hafa frekar keimlíkan tón enda mörg gefin út af sömu útgáfunni, að undanskildu hinu stórmerkilega rafriti Rafskinnu, en þessir einsleitu tónar fílefla okkur að sjálfsögðu í því að hrista smá lífi í þessa tegund útgáfu.

Ég undra mig stundum á því að ekki sé leikið meira með þennan miðil; tímaritið, því það er mjög gaman að leika með þetta form. Það býður svo vel uppá að teygja sig og toga á ýmsa kanta -endalausir möguleikar. En í öllum þessum tilraunum og leik viljum við þó stuðla að því að skapa eigulegan grip úr dýrindis pappír, hlaðinn litum og gæða list.

Hvenar er áætlað að fyrsta blaðið komi út og hvar getur maður nálgast eintak?

Útgáfudagur fyrsta tölublaðs Endemis er  þann 7.maí  nákvæmlega. Verður hann haldinn hátíðlegur með einslags útgáfusýningu í gallerý Kling og Bang á Hverfisgötunni, en þar munu flestar þeirra sem sýna í Endeminu sjálfu sýna verk sín.

Allir eru velkomnir á opnunina en nánari auglýsingar verða birtar síðar. Á sýningunni verður hægt að kaupa eintak og gerast áskrifandi tímaritsins en það er einnig hægt á heimasíðu tímaritsins: www.endemi.wordpress.com.

Endemi verður að sjálfsögðu til sölu í öllum helstu bókabúðum, listasöfnum og galleríum. Eins er hægt að fylgjast með Endemi á facebook: http://www.facebook.com/pages/Endemi-T%C3%ADmarit-um-samt%C3%ADmalist-%C3%ADslenskra-kvenna/184911171543999

Elísabet Brynhildardóttir, ritstjóri Endemi

 
Monday, 14. March 2011

Innlegg vikunnar – Björk Viggósdóttir

Er myndlist einkamál útvalins hóps eða er hún eitthvað sem almenningur getur tekið þátt í / notið?

Myndlist er alls ekki fyrir einhvern útvalinn hóp, við gerum myndlist fyrir áhorfendur, alla áhorfendur. Fyrir alla þá sem langar að upplifa eitthvað nýtt hvort sem það er sjónrænt, tónrænt  eða á hvaða skynfæri sem verkið spilar á hverju sinni. En við njótum myndlistar með ólíkum hætti
Ég held að það sé oft miskilningur í gangi, sumir eru hræddir við nútíma myndlist og halda að þeir eigi að upplifa eða vita meira um verkið sjálft en verkið sjálft gefur til kynna. En ég held að galdurinn felist í því að áhorfandinn getur verið með hvaða bakgrunn sem er og upplifað verkið á sinn hátt, því allir eru með sinn reynsluheim að baki sem hefur áhrif á hvernig við skynjum og upplifum alla hluti. Sumir halda að myndlist sé einhverskonar stærðfræðivísindi og finnst að ef þeir vita ekki svarið við einhverri spurningu að þá skilji þeir ekki verkið og þar með sé verkið misheppnað eða eitthvað þaðan af verra. Galdurinn er ekki að skilja heldur að skynja og öllum er frjálst að skynja það sem þeir vilja. Það er eitthvað fallegt við það þegar að verk nær áhorfandanum með sér, og lætur hann langa að vita meira.

Hvernig er aðgengi ungra myndlistarmanna sem fullra þátttakenda í listalífinu hér á landi?

Ég held að aðgengi sé gott fyrir unga listamenn. Listasamfélagið hér er mjög lítið og listumhverfið gott. Það hafa verið ótrúlega áhugaverðar og sterkar sýningar í gangi eftir unga listamenn þar kemur gallerý Crymo sterkt inn sem sýningarstaður fyrir unga listamenn.

Þó alltaf væri gaman að sjá meira af sýningum hjá stærri söfnunum með  yngri listamönnum. D salurinn hjá Listasafni Reykjarvikur er gott dæmi um hvað það getur heppnast vel. Mér fannst Grasrótarsyningarnar alltaf mjög áhugaverðar og það er frábært að þær séu byrjaðar aftur. Ég var valin til að taka þátt árið 2008 og það var mjög gaman að taka þátt. Það er svo mikilvægt fyrir listamennina að þeir fái þá viðurkenningu að vera valdir til að taka þátt í slíkum verkefnum. Ungir listamenn eru líka duglegir að skapa og koma sér áfram.Ég hef verið ótrúlega heppin og fengið tækifæri að sýna út um allt, mikið í evrópu og líka í New York. Það skiptir miklu máli að vera duglegur og vera jákvæður en fyrst og fremst muna að allt er hægt ef að maður nennir því.

Nú hefur þú unnið töluvert með listamönnum úr öðrum greinum, myndir þú segja að þetta væri sambærilegt í öðrum listgreinum?
Ég held að ferlið sé misjafnt eftir listgreinum þá er leitin og vinnuferlið misjafnt þó niðurstaðann sé sú sama. Sýning fyrir áhorfendur. En þetta snýst allt um það sama að skapa sér leið og vetvang til að koma hugmyndum sínum á framfæri í til dæmis góða sýningu eða tónleika. Ég hef verið svo heppin að fá að starfa með ótrúlega góðu fólki í ólíkum greinum, dönsurum, Dj um, tónskáldum, skáldum, tónlistarmönnum, hljóðfæraleikurum, leikurum, ljósamönnum, leikstjórum, búningahönnuðum, leikhúsfólki og mörgum fleirum. Það fá tækifæri til að  kynnast ólíku sköpunarferli hefur gefið mér ótrúlega mikið og bætt í reynslu bankann.  En það skiptir miklu máli að vera góður í að skapa sér sín tækifæri sjálf og vinna með góðu fólki.

Björk Viggósdóttir myndlistarmaður

http://bjorkviggosdottir.wordpress.com/

 
Monday, 7. March 2011

Innlegg vikunnar – Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Hvernig starfar þú sem sjálfstætt starfandi listfræðingur?

Ég er sjálfstætt starfandi og tek að mér tímabundin verkefni eða hef frumkvæði af þeim sjálf. Flest þessara verkefna tengjast skrifum og útgáfustarfsemi, en geta einnig verið trúnaðarstörf. Undir slíkt flokkast dómnefndir, listráð og aðrar slíkar nefndir.  Síðan er ég stundakennari og leiðbeinandi við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands þar sem ég kenni franska listasögu og nýmiðlalistfræði. Undanfarin tvö ár hef ég líka verið myndlistargagnrýnandi Víðsjár á Rás 1.

Í doktorsnámi þínu hefur þú rannsakað sögu íslenskrar vídeólistar. Getur þú greint frá því helsta sem þú hefur komist að í þeirri rannsókn? og sagt frá því sem er að gerast þessa dagana í video list hér á landi?

Listsögulegar rannsóknir eru ekki mitt sérsvið þar sem mín menntun er á sviði fagurfræði. Það var því aldrei ætlunin að skoða sögu íslenskrar vídeólistar, enda er það aðeins hluti af verkefninu. Ástæða þess að ég leiddist út á þessa braut er sú að á fyrsta ári mínu í doktorsnáminu fékk ég áhuga á að skoða áhrif nýrrar tækni og miðla á listsköpun samtímans og þá sérstaklega verk byggð á gagnvirkni. Á þessum tíma bjó ég í Frakklandi og var ekkert sérstaklega upptekin af íslenskri myndlist. Þetta breyttist eftir að ég flutti aftur heim af þeirri augljósu ástæðu að þá var auðveldast að nálgast íslensk verk. Ég komst þó fljótt að því að þeir íslensku listamenn sem höfðu áhuga á nýjum miðlum voru teljandi á fingrum annarrar handar. Það var með þessum listamönnum sem ég stofnaði Lornu, félag áhugamanna um rafræna list árið 2002, tók þátt í að koma á fót raflistahátíðinni Pikslaverki árið 2008 sem nú er skipulögð í samvinnu við Raflost og setja á stofn media lab haustið 2010. Í kringum þessi verkefni er stækkandi hópur listamanna sem koma úr ýmsum áttum með ólíkan bakgrunn. En árið 2002 áttu þessir listamenn allir stuttan feril að baki, svo „skortur“ á verkum til að rannsaka fyrir doktorsverkefnið varð til þess að ég ákvað að snúa mér að myndbandsverkum sem eiga sér fyllri sögu innan listanna. Það reyndist hins vegar hægara sagt en gert að finna slík verk þegar til átti að taka. Það var eins og myndbandsverkin hefðu ekki verið tekin alvarlega og ekki verið hugað að varðveislu þeirra. Þau voru t.d. ekki aðgengileg á neinu safni nema í algjörum undantekningartilfellum.

Í dag eru fjölmargir íslenskir myndlistarmenn að nota vídeó, enda myndbönd orðin  jafn algeng og ljósmyndir. Við höfum líka verið að sjá listamenn sem hafa náð gríðarlega góðum tökum á miðlinum.


Bera opinber söfn samfélagslegar skyldur?

Söfn bera að sjálfsögðu skyldur við samfélagið sem bæði varðveislu og fræðslustofnanir, en þau hafa einnig ákveðið svigrúm til að ákveða hvernig þau sinna þessari skyldu. Ég tel hins vegar að staða íslenskra listasafna og þá ekki síst höfuðsafnsins, Listasafns Íslands, sem ætti að vera leiðandi stofnun, sé í rauninni mjög erfið. Listasafn Íslands er fjársvelt og undirmönnuð stofnun og hefur verið það lengi. Þetta þýðir að safninu er ekki gert auðvelt að vera leiðandi og þróast í takt við það sem hægt væri að ætlast til. Þetta segir síðan ýmislegt um þann stakk sem öðrum söfnum er skorinn því ekki er hann rýmri að frátöldu Listasafni Reykjavíkur.

En það hefur líka haft áhrif á starfsemi íslenskra listasafna hve staða listfræðinnar hefur verið veik. Það er stutt síðan listfræðin varð sérstök grein innan Háskóla Íslands, en við sjáum það í öðrum greinum að það skiptir máli að hafa sterka undirstöðu í fræðunum. Slíkt kemur hreyfingu á rannsóknir sem gegna því hlutverki að varpa nýju ljósi á söguna og endurnýja fræðin. Öflugar rannsóknir geta verið leið til að halda listasöfnunum við efnið, en á sama tíma verður líka að búa þeim sæmileg starfsskilyrði. Sé það ekki gert er hætta á stöðnun sem dregur úr möguleikum þeirra á að sinna skyldum sínum og móta sér stefnu í takt við þær kröfur sem hægt er að gera til listasafna í dag.

Margrét Elísabet Ólafsdóttir listfræðingur

http://reykjavikmedialab.is/

 
Tuesday, 1. March 2011

Innlegg vikunnar – Erling T.V. Klingenberg

Þú ert einn af stofnendum Kling og Bang gallerí; hvers vegna tókuð þið þá ákvörðun á sínum tíma (árið 2003) að stofna gallerí?

Þegar ég flutti frá Danmörku í lok árs 2002 og kom hingað til Íslands var lítið sem ekkert um sýningarstaði fyrir “yngri” kynslóð listamanna; gallerí Hlemmur var enn til staðar og jú Nýlistasafnið en þar var það með upptalið.  Stóru söfnin á þeim tíma sýndu svo til aldrei listamenn af yngri kynslóðinni þannig að það var af ákveðinni nauðsyn að Kling & Bang var stofnað.  Laugavegur 23 stóð til boða sem vinnustofur en vegna góðrar staðsetningar ákvað ég að hóa í fólk sem ég hafði kynnst á lífsleiðinni og stofna gallerí.

Við vorum tíu myndlistarmenn sem borguðu úr eigin vasa fyrstu árin tvö fyrir leigu og öðrum kostnaði, m.a. vegna þess að það tekur tíma “að sanna sig” fyrir opinberum aðilum einsog Reykjavíkurborg.

Við byrjuðum að sjálfsögðu að leggja áherslu á yngri listamenn en þegar árin liðu blönduðust þessar áherslur, og eldri jafnt sem yngri sýndu í Kling & Bang – það sem varð ofan á var listin sjálf, óháð aldri eða kyni.

Hefur mikið breyst í myndlistarumhverfinu hér á landi sem og í rekstri gallerísins frá stofnun þess?

Ef ég tala fyrst og fremst út frá Kling & Bang og sleppi umræðu um fjárhag, þá hefur menningarleg “inneign” Kling & Bang aukist til muna á þessum tæpum níu árum sem það hefur verið starfrækt.  Við teljum enn í dag að við séum nauðsynlegur drifkraftur í íslensku lista-og menningarlífi, og er fyrirbærið Kling & Bang vel þekkt og virt erlendis.  Í gegnum þessa þekkingu og virðingu hafa opnast margir möguleikar fyrir íslenska listamenn á erlendri grundu og er það gífurlega hvetjandi fyrir okkur og okkar störf.  Það er þessi menningarlega “inneign” sem m.a. stoppar okkur í því að “gefast upp”, of mikið hefur verið byggt upp til að loka á það.

Hérlendis breytist þó myndlistarumhverfið mjög hægt, þó vissulega njóti Kling & Bang ákveðinnar “virðingar” innan ákveðins hóps, þá er erfitt að gera sér nákvæmlega grein fyrir væginu sem það hefur og setja fingur og augu á það.

Það sem þó má sjá og benda á að hafi breyst á síðustu 5-6 árum snýr m.a. að stærri listasöfnunum, en þar eru yngri listamenn og sýningarstjórar meira áberandi en áður þekktist og skrifast það ef til vill á breytt hugarfar safnstjóranna, en einnig myndi ég segja að þessi hugarfarsbreyting skrifist að miklu leyti á ákveðin verkefni og listamannarekin fyrirbæri síðustu ára.

Ég held og vona að þetta meira “opnara” umhverfi verði yngstu kynslóðinni að góðu, sem  innspýting til góðra verka, og vonandi verður allt hið tóma húsnæði til þess að hýsa þá sprengju sem vonandi á eftir að springa innan grasrótar listarinnar.

Það má því kannski segja að möguleikarnir á breyttu hugarfari og umhverfi listarinnar séu miklir, og muni breytast enn meira.  En eins og svo oft áður til að svo geti orðið þarf hver og einn að vænta ekki of mikils frá hinu opinbera, hvort sem er í formi fjárhags, virðingar eða vægis.

Hér verð ég þó að minnast aðeins á atburði undanfarinna mánaða, í stuttu máli og það eru “birtingarbönn” (ritskoðun) sem hafa átt sér stað á myndlist og sýningar.  Alveg sama með hvorum “deiluaðila” þú tekur afstöðu með, eða tekur enga afstöðu, þá er það alvarlegt að myndlistin, sem er að sjálfsögðu háð ákveðnum sýnileika, fái ekki að birtast á vettvangi til að einmitt skapa grundvöll til gagnrýnis, skoðanaskipta og ígrundunar.

Maður getur ekki annað en spurt sig, hefur þetta alltaf verið svona? Eða er þetta þróunin?  Hvað ef hlandskál Duchamps hefði aldrei sést á sýningu? Hvað ef Vínargrúppan hefði aldrei orðið sýnileg?  Hvað ef andstaða margra manna um abstrakt list hefði náð fram að ganga? Hættulegt, hættulegt, hættulegt…..

Ég er því spenntur að sjá hvað listamenn gera í náinni framtíð og hvernig mál þróast, “harkið” heldur áfram og kannski verður eða er meðvitundin orðin meiri?

Hvernig starfar þú sem sjálfstætt starfandi myndlistarmaður?

Með skuldahala á eftir mér og óstöðvandi trú á listinni.  Vinn öðru hvoru fyrir smá aur fyrir önnur listasöfn, vinn frítt fyrir Kling & Bang og tel mér trú um að þau störf séu líka stór hluti af því að skapa list.  Og þá sjaldan sem ég sel eitthvað, þá fer sá aur beint í framleiðslu á öðru verki.

Hugmyndin kemur fyrst, svo trúin á hugmyndina, svo miðillinn sem hugmyndin er unnin í, svo spurningin og leiðin til að fjármagna verkið síðast, þess vegna lifi ég ekki á listinni heldur lifi fyrir hana.

Erling T.V. Klingenberg, myndlistarmaður og stjórnarmeðlimur Kling & Bang gallerí