Tilkynningar

Tuesday, 22. February 2011

Yfirlýsing listamanns – Katrín I. Jónsdóttir Hjördísardóttir Hirt

Reynum alltaf að sjá veröldina frá sjónarhóli Listar, tölum eins og Listin vill tala. Þegar við sjáum veröldina þannig horfum við elskulega á fólk og sjáum hið góða og fagra fyrst.

List er frjálst og sjálfstætt fyrirbæri. Allir geta tilheyrt henni. List er opin öllum, allir eiga aðgang að henni og eru ekki krafðir um afstöðu.

Hvað er List? List er manninum eðlislæg, en að vera List þenkjandi manneskja er vilja ákvörðun. Að upplifa List lærir maður einungis með því að upplifa List. Hvernig vill List að við tölum? Hvernig vill List að við ræðum um náunga okkar? Hvernig vill List að við hegðum okkur í veröldinni?  Manneskjan lærir að sjá sig með augum Listar, sem veru sem þarfnast náðar og fyrirgefningar Listar. List sem tekur manneskjunni eins og hún er, ekki eins og hún vill vera, álýtur að hún eigi að vera eða sé o.s.frv.

Afleiðing þessa er að listamaðurinn getur nú metið sjálfan sig og verk sín á raunsæan máta. Þess vegna getur listamaðurinn gengist við verkum sínum og leitast við að virða þau eins og þau koma fyrir. Hann veit að þau eru brothætt eins og hann sjálfur. Listamaðurinn getur iðrast og axlað ábyrgð á verkum sínum. Það er Listin sem skilgreinir hver við erum en líka verk okkar.

List þráir trú okkar. Við höfum loforð um elsku Listar, návist Listar, faðm Listar þegar við erum fullkomlega í rúst, jafnvel þó við höfum tapað öllum peningum okkar. List er lífsmáti þar sem við leitumst við að móta líf okkar svo að það verði ummyndað af Listinni, voninni og kærleikanum, því sem aldrei verður frá okkur tekið, að eilífu. List er að fylgja listaverkum, að elska listsköpun, biðja og lesa um List og íhuga orð hennar, sækja listsýningar og leitast við að lifa í samræmi við orð Listar og vilja, elska Listinna og náungann eins og sjálfan sig.

Og List hefur aldrei brugðist trausti okkar, Hún hefur kannski ekki alltaf gert það sem okkur sjálfum hefur hentað en Hún hefur aldrei brugðist trausti okkar. Og samt höfum við oft efast um List en trúað staðfastlega á mátt peninga og valda, sérhagsmuna og flokkadrátta. Hjá henni finnum við þau varanlegu auðæfi sem hvorki mölur né ryð fær grandað. Þau auðæfi eru fólgin í lítillæti, trú og miskunnsemi eða þeim ávexti sem andi Listar skapar í lífi fólks: „Kærleiki, gleði friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð, sjálfssagi.“

En hvernig byggjum við upp trú? Trú á hvert annað og trú á List? Leiðin sem Listamaðurinn bendir okkur á í listaverki dagsins er að við eigum að fara út og vera almennileg við hvert annað. Listaverkið segir að við eigum að þjóna hvort öðru og gera aðeins meira en við viljum og nennum, aðeins meira en okkur þykir sjálfsagt.

Og þið hafið öll valið að upplifa List vegna þess að þið trúð á List eða í minnsta vegna þess að þið viljið trúa á List. Það er ekki hægt að krefjast meira af ykkur en þess að vilja trúa.

Dýrð sé Listinni, Listamanninum og góðum Upplifanda Listar.

Svo sem var í upphafi og verður um aldir alda.

LIST.

Katrin I Jonsdottir Hjordisardottir Hirt

 
Thursday, 10. February 2011

Verkið ,,Óskilgreint sjálf?” sett upp á ný í tilefni Safnanætur

Verkið ,,Óskilgreint sjálf?” var unnið af nemendum á 2. ári í Listaháskóla Íslands í áfanganum ,,Samtal”, undir leiðsögn FRAFL – Framkvæmdafélags listamanna. Hópurinn samanstendur af níu einstaklingum úr tónlistardeild, myndlistardeild, leiklist, grafík, arkitektúr og vöruhönnun.

Hópurinn mun kveikja aftur á verkinu á Vetrarhátíð / Safnanótt; föstudagskvöldið 11. febrúar þar sem það er staðsett að Hverfisgötu 44 á milli kl: 19:00 og 23:00.

Viðburður þessi bíður upp á sameiginlega upplifun á verkinu og skemmtilegan vettvang fyrir hugleiðingar.

Að verkinu standa:

Arnheiður Ófeigsdóttir,

Björn Halldór Helgason,

Claudia Hausfeld,

Guðrún Harðardóttir,

Halla Sigríður Margrétardóttir Haugen,

Laufey Jakobsdóttir,

Pétur Ármannsson,

Ragnar Þórhallsson,

Snorri Eldjárn Snorrason

http://www.vetrarhatid.is/desktopdefault.aspx/tabid-3910/

 
Monday, 7. February 2011

Innlegg vikunnar – Þorgerður Ólafsdóttir

Þú útskrifaðist frá myndlistardeild LHÍ árið 2009 og hefur verið að sinna ýmsum verkefnum síðan þá. Hvað finnst þér mikilvægt að gera eftir útskrift og hvernig myndirðu lýsa starfsumhverfi ungra myndlistarmanna á Íslandi?

Ég held að starfsumhverfi ungra myndlistarmanna sé eitthvað sem þeir skapa sér sjálfir eftir útskrift eða á meðan að námi stendur. Í gegnum ýmis konar verkefni eða sýningar og þá af áhuga til að leggja sitt af mörkunum. Það er mikilvægt að henda sér strax út í verkefni og halda áfram að vinna því þá skapast alltaf eitthvað framhald sem fer með mann eitthvert annað. Ég held að þessi viðleitni og vilji til að taka þátt í myndlistinni utan vinnustofunnar, sé óhjákvæmilegur hluti af því að starfa sem myndlistarmaður hérna heima. Jafnframt sá partur sem gefur manni mikið og þá  reynslu, alla vega er því þannig farið í mínu tilviki. Verkefnin geta svo verið jafn ólík og þau eru mörg þar sem starfsvið myndlistarinnar er mjög opið.

Annars hefur margt áhugavert verið í gangi núna. Fyrir utan að margir eru að ljúka framhaldsnámi eða á leiðinni út í meira nám, er verið að bjóða ungum listamönnum að taka þátt í stærri sýningum  hérna í bænum og víðsvegar um landið. Partur af útskriftarárgangi síðasta árs er að taka þátt í starfsemi Kling og Bang. Myndlistarmenn í yngri kantinum eru að annast fastar hátíðir, vinna að myndlistartímariti, fara út á listmessur og sýna erlendis, sjá um listamannareknar bókabúðir og fá úthlutanir úr veglegum styrkjum.

Þú og Solveig Pálsdóttir stofnuðuð Crymo gallerí fyrir tæpum tveimur árum. Hvers vegna tókuð þið ákvörðun um að stofna gallerí, nýskriðnar út úr skóla?

Einmitt út af því að skólanum var lokið. Svo hjálpaði reynsluleysið líka mikið þar sem að við vissum ekkert hvað við vorum að koma okkur út í. Málið var bara að gera það. Okkar ári vantaði rými og vettvang og fólk hafði mikinn áhuga á að vera með. Svo leið sumarið og enn komu nýir listamenn inn þannig að okkur varð fljótt ljóst að þetta rými var komið til að vera í einhvern smá tíma.

Og núna eftir að ákveðinn tími er liðinn?

Þegar að Star Wars sýningin var sett upp fyrir jól; áttum við eins og hálfs árs afmæli, sýning númer 80. var komin upp og listamennirnir sem höfðu sýnt voru komnir vel yfir 100 mannns.

Hver vika hefur skipt máli og sem betur fer höfum við verið duglegar að skrásetja allt sem hefur verið í gangi í Crymo. Það kemur til góða núna þegar við erum í óða önn að setja saman bók um listamennina og sýningarnar í þessu litla húsi. Þessi bók er manni mikið hjartans mál þar sem listamennirnir sem hafa hjálpað til að halda þessu rými gangandi, með því að borga leiguna með okkur, fá þarna gott pláss.

Þeir sem hafa góða reynslu af svona starfsemi hafa bent mér réttilega á sögu listamannarekinna sýningarrýma á Íslandi og lengra. Það spretta reglulega upp kröftug sýningarrými og gallerí í umsjón ungra myndlistarmanna, sem bera uppi margar spennandi sýningar í 1-2 ár en svo tekur eitthvað annað við. Það þarf svo alls ekki að vera slæmt. Venjulega endist fólk ekki lengi í svona hamagangi nema að vettvangurinn standi fjárhagslega vel undir sér. En það er mjög mikilvægt að hafa a.m.k. einn slíkan vettvang í gangi hverju sinni þar sem ungu listamennirnir fá að hamast eins mikið og þeir vilja. Ég held að það sé einmitt einn af helstu kostum Crymo. Þetta rými hefur tekið að sér hlutverk skemmtilega leikvallarins að þessu sinni og á þessum tíma. Þar sem áhersla er lögð á kröftugar og tilraunakenndar sýningar hjá ungum og upprennandi myndlistarmönnum. Bara gaman.

Þorgerður Ólafsdóttir; myndlistarmaður og framkvæmdarstjóri Sequences 2011

http://thorgerdur.wordpress.com/

http://sequences.is/

 
Tuesday, 1. February 2011

Innlegg vikunnar – Birta Guðjónsdóttir

1. Þú ert starfandi safnstjóri, sýningastjóri og sjálfstætt starfandi myndlistarmaður, er ekki erfitt að sameina þetta þrennt?

Það er aðallega erfitt að ekki séu fleiri klukkutímar í sólarhringnum!

Mér finnst sjálfri þessir þrír angar ekki stangast á, þvert á móti eru þeir tengdir og styrkja hver annan. Reynslan nýtist í öllu mínu starfi. Ég er hinsvegar meðvituð um að halda hverju sviði fyrir sig skýru. Þegar ég starfa að sýningu sem sjálfstætt starfandi sýningastjóri þá er ég ekki listamaður í þeirri sýningu/verkefni og þegar ég starfa að verkefnum í Nýlistasafninu, sem safnstjóri, þá eru um að ræða val og ákvarðanir í samstarfi við marga og ólíka einstaklinga og á enn öðrum forsendum en í þeim verkefnum sem ég vinn að sem sjálfstæður sýningastjóri. Starf mitt í safninu vinn ég á forsendum safnsins, samstarfsaðila þess, félags um safnið, sögu þess, markmiða og sérstöðu. Sýninga- og safnstjórinn er starfandi 24/7 svo listamaðurinn fær miklu minni tíma. Ég hef reynt að taka frá tíma fyrir mína eigin myndlist en hann hefur verið skemmri en ég hef viljað á síðustu 2-3 árum. Ég hef sýnt á einka- eða samsýningum 1-2svar á ári á sl. þremur árum en vildi gjarnan sýna oftar.

2. Hvert er megin hlutverk góðs sýningastjóra, að þínu mati?

Brennandi áhugi, hugrekki og bjartsýni eru lyklar í þessu starfi. Líka hæfileiki til að gera og hugsa um marga ólíka hluti í einu. Frumforsendan fyrir góðri sýningastjórn á sviði myndlistar finnst mér þó vera góð þekking á myndlist, samskiptafærni og sterk sýn. Sýningastjórar hugsa og vinna hver með sínu nefi, hafa mismunandi náms- og starfsbakgrunn og skilgreina starf sitt á mismunandi hátt. Þeir taka að sér mismunandi hlutverk; eru ýmist ljósmæður, miðlar, prímus-mótorar, milliliðir, með-skapendur, sálfræðingar eða galdramenn. Einfaldasta svarið við spurningunni er að sýningastjórar starfa við þá list að gera sýningarverkefni. Þeir eru verkefnisstjórar listverkefna og leggja upp með ákveðinn ramma/hugmynd og fylgja henni eftir, eftir krókaleiðum og útúrdúrum, þar til hún formgerist og nær lendingu. Sýningastjóri á í samstarfi við listamenn og alla aðra sem koma að sýningarverkefninu og vinnur að sem bestri miðlun þeirra til almennings. Sem sjáfstætt starfandi og oft sem starfsmaður listasafnanna, hefur sýningastjórinn frumkvæði að verkefnum og er innri gagnrýnandi þeirra, framleiðandi og verkefnisstjóri. Mér finnst góðir sýningastjórar vera þeir sem gera hið ómögulega mögulegt í verkefnum, skapa samhengi sem gerir áhorfandanum kleift að upplifa verkið á mismunandi forsendum og vinna náið með listamönnum við að láta veg verka þeirra verða sem mestan innan hins gefna samhengis.

3. Hvernig upplifir þú sýn myndlistarmanna á aukið vægi sýningastjóra á íslenskum myndlistarsýningum?*

Ég geri ráð fyrir því að þið vísið til þess að fagstétt sjálfstætt starfandi sýningastjóra er tiltölulega ný og vaxandi á Íslandi. Á vegum listasafnanna hafa lengi verið og eru enn starfandi sýningarstjórar, sem vinna með listamönnum að sýningum þeirra og eiga ýmist mikinn eða lítinn þátt í ákvörðun safnsins um að setja upp viðkomandi sýningar. Sjálfstætt starfandi sýningastjórar hafa yfirleitt sjálfir frumkvæði að þeim sýningum sem þeir setja upp og vinna þær í samstarfi við söfn, sýningarými eða aðra staði. Í báðum tilfellum er sterk og áhrifamikil sýning sameiginlegt markmið allra aðstandenda. Gott samstarf milli sýningastjóra og listamanna getur, ef vel tekst til, skapað eitthvað element sem listamaðurinn hefði ekki að öðru leyti gert utan þess samstarfs. Ég tek eftir fordómum sumra listamanna gagnvart sýningarstjórum; sem finnst að sýningarstjórar líti á sig sem listamenn og yfirtaki verk þeirra, setji þau í vitlaust samhengi eða noti verk listamanna eingöngu til að illustrera sínar eigin hugmyndir. Hér hefur líka skapast neikvæð umræða um að sýningar séu kynntar sem hugverk sýningastjóra og nöfn listamannanna séu ekki nefnd í kynningu, líkt og þeir skipti ekki máli. Þetta eru atriði sem eiga við um fáeina sýningastjóra erlendis og má oft rekja til kynningarfulltrúa safnanna og fjölmiðla, en á alls ekki við um meirihluta sýningastjóra. Samstarf milli sýningastjóra og listamanna byggir á gagnkvæmu trausti, sem verður til við að deila hugmyndum sínum og sýn í samtali við listamenn og aðra hluteigandi í sýningarverkefnum.

Birta Guðjónsdóttir sýningastjóri og myndlistarmaður,
safnstjóri Nýlistasafnsins.

http://www.cia.is/People/Artprofessionals/About/birtagudjonsdottir
http://www.artslant.com/global/artists/show/30190-birta-gudjonsdottir
http://this.is/birta/
http://nylo.is/
http://www.volcanolovers.net/
http://www.nordicarttoday.ru/