Tilkynningar

Sunday, 30. January 2011

Sýning FRAFL hóps SAMTALS

Úkoma samtals og samvinnu FRAFL hóps í áganganum “Samtal” við Listaháskóla Íslands var sýnd á fimmtudaginn á Kaffistofunni, Hverfisgata 44, 101 Reykjavík. Umgjörð verksins stendur enn á vegg Hverfisgötu 46, og sést vel þegar keyrt er upp Hverfisgötuna frá Arnarhóli.

Listamenn:

Pétur Ármannsson

Arnheiður Ófeigsdóttir

Laufey Jakobsdóttir

Snorri Eldjárn Snorrason

Björn Halldór Helgason

Claudia Hausfeld

Guðrún Harðardóttir

Halla Sigríður Margrétardóttir

Ragnar Þórhallsson

Hér má finna nánari upplýsingar um námskeiðið og myndir.

 
Wednesday, 26. January 2011

Óskilgreint sjálf?

FRAFL hópur nemenda úr áfanganum “Samtal” við Listaháskóla Íslands opna nýtt verk: ÓSKILGREINT SJÁLF?

Opnunin fer fram fyrir utan Kaffistofu Nemendagallerís skólans, að Hverfisgötu 44, fimmtudaginn 27. janúar kl. 21.00.

Áfanginn “Samtal” er sameiginlegt námskeið allra deilda Listaháskóla Íslands, þar sem nemendur starfa í hópum innan sama ramma. Á tímabilinu vinna hóparnir að samsetningu hverskonar verka, atriða, gjörninga, fyrirlestra eða uppákoma, þar sem samþætting ólíkra hugmynda og aðferða er höfð að leiðarljósi. Á tímabilinu fara fram ýmsar umræður og fyrirlestrar er tengjast námsefninu, þar sem leiðbeinendur hvers hóps leggja línurnar hvað varðar úrvinnslu og framsetningu verkefna. Sjá: http://icelanddialogue.wordpress.com/

Hópurinn samanstendur af 9 einstaklingum úr tónlistardeild, myndlistardeild, grafík, leiklist og arkitektúr. Verkið er afurð tveggja vikna vinnuviku þar sem þau sameina krafta sína og kunnáttu og skapa eitthvað nýtt undir yfirskriftinni: “Nýtt Ísland”.
Hlökkum til að sjá ykkur!

 
Tuesday, 25. January 2011

Innlegg vikunnar – Jón B. K. Ransu

Hver eru megin gildi myndlistar að þínu mati?

Það fer eftir tímabilinu sem við erum að skoða. Ég geri þó ráð fyrir að spurningin snúist um samtímalist, en ég geng út frá því að listgildi samtímans byggist á samspili þriggja þátta.  Þeir eru:

• Hugmyndafræði (merking, orðræða, heimspeki).

• Markaðsfræði (neysla, afþreying, iðnaður).

• Fagurfræði (hönnun, handverk, myndmál).

Hugmyndafræðin snýr að merkingu sem hlutur (eða athöfn) er gefinn út frá kenningu um list (sbr. Arthur C. Danto, George Dickie, Hans Belting o.fl.) og hvernig hann plummar sig í orðræðu listheimsins. Þannig getur t.d. hamborgaratúr eða megrunarkúr Curvers Thoroddsen og „tagg“ Hlyns Hallssonar fengið gildi sem list.

Markaðsfræðin snýr að listamanninum sem vörumerki og hvernig við tengjumst því tilfinningalegum böndum, ekki ólíkt og er í dægurlagatónlist og tískuheiminum.  Áhorfandinn er þá fyrst og fremst séður sem neytandi og listaverkið vörumerkt „pródúkt“.   Einnig kemur aðlögun myndlistar að afþreyingar- og skemmtanaiðnaði inn í þennan hluta listgildisins, en það er ein aðalæð íslenskrar samtímalistar að mínu mati.  Sem dæmi má nefna hrekkherbergi (funfair art), Elínar Hansdóttur, leiktækjaskúlptúra Ilmar Stefánsdóttur og auðvitað myndlistarpopp Egils Sæbjörnssonar og Ragnars Kjartanssonar.

Fagurfræðin viðkemur samsetningu alls þess sem listamaður notar til að miðla verki sínu til annarra og beinist þá að hönnun og handverki.  Myndmál listarinnar styðst við fagurfræðina þótt hún sé ekki forsenda þess að hlutur sé list. Málverk Eggerts Péturssonar og veflistaverk Hildar Bjarnadóttur eru góð dæmi.  Við dáumst að vönduðu handverki listamannanna en meðtökum verk þeirra sem list þegar við gefum okkur að því hugmyndalega sem liggur þeim að baki og látum inn í orðræðu listheimsins. Þannig búum við til tilfinningaleg tengsl við vörumerkin Eggert Pétursson og  Hildi Bjarnadóttur.

Þetta er í grófum dráttum hvernig ég sé listgildi samtímans.

Auka textar um myndlistarverk gildi þess?

Textar eru mikilvægur hluti af hugmyndafræðinni, þ.e. kenningunni um list og orðræðu listheimsins, sem vissulega ákvarðar margt um gildi listaverks. Hins vegar skiptir tilgangur textans miklu máli. Erum við t.d. að tala um einhverskonar greiningu listfræðings eða listheimspekings á listaverki, gagnrýni á listaverki, umræðu í dægurriti (innsendar greinar eða blogg), kynningu í sýningarskrá eða texta eftir listamanninn sem hann skrifar samhliða listsköpuninni sem verður þá hluti af listaverkinu?

Ég er einmitt mjög spenntur fyrir greinandi textum sem eru skrifaðir af listamanni samhliða listsköpun hans. Það gefur listinni fræðilegt vægi sem ógnar afþreyingarvæðingu á myndlist eða skapar allavega einhvern pól þar á móti.  Það er samt ekkert nýtt af nálinni. Listamenn Bauhaus skólans voru t.d. fræðimenn á sinn hátt.  Vassilíj Kandinskíj,Paul Klee og Josef Albers skrifuðu „lærðar“ greinagerðir með listsköpun sinni. Líka Barnett Newman, Joseph Kosuth og margir fleiri.  Það fer ekki mikið fyrir þessháttar textum í íslenskri samtímalist, en það kann að breytast, t.d ef LHÍ fer að tengjast háskólasamfélaginu í meira mæli.  Allt má þó vera í hófi og „textaleiðin“ er ekki fyrir alla.

Er æskilegt að gagnrýna myndlist?

Gagnrýni er bókmenntagrein sem miðlar upplýsingum og fjallar um list og hjálpar mikið til  þegar maður hefur ekki aðgang að sýningum vegna fjarlægðar milli landa. Það eitt dugar mér til að segja hana æskilega.  Mér finnst allavega nauðsynlegt að fylgjast með skrifum alþjóðlegra gagnrýnenda og af og til rekst ég líka á mjög skarplega ritaða rýni, bæði í fagmiðlum og dægurmiðlum.  Gagnrýni er hins vegar í tilvistarkrísu.  Ein helsta klípa gagnrýninnar er að gagnrýnandinn þarf að setja sig í spor listamannsins og skrifa út frá því.  Engu að síður er hann bundinn eigin smekksdómum sem býr til vissa þversögn.  Ég get nefnt sem dæmi þegar gagnrýnandi Morgunblaðsins segir um sýningu Gardars Eide Einarssonar í Hafnarhúsinu: „Yfirbragð sýningarinnar er myrkt og torrætt, jafnvel fráhrindandi – það er ef til vill hinum töffaralega dauðarokksblæ að kenna. Þessi blær er um leið helsti ljóðurinn þar eð hann þrengir sjónarhornið“.  Þetta segir okkur aðallega að gagnrýnandanum þyki ekki mikið til dauðarokks koma og metur sýninguna að hluta út frá því.  Ég er ekki saklaus þarna frekar en aðrir sem hafa skrifað gagnrýni, en finnst þetta galli við formið á henni.  Það þyrfti virkilega að taka það til gagngerar endurskoðunar, sérstaklega hér heima, en hér virðist enginn áhugi vera á gagnrýni, allavega eins og hún er rituð í dag.  Þá þykir mér vænt um orð Charles Guarino, ritstjóra Artforum: „Látum [list]tímaritið vera listinni til sóma. Ellegar erum við bara að kála trjám“.

Jón B. K. Ransu

myndlistarmaður

 
Monday, 24. January 2011

Kynning FRAFL upp í Listaháskóla Íslands í námskeiðinu “Samtal”

FRAFL var með kynningu í morgun upp í Listaháskóla Íslands í kúrsinum “samtal”, sjá: http://icelanddialogue.wordpress.com/

Þar kynnti FRAFL markmið sín, stefnur og framtíðarsýn með áherslu á þverfaglegt samstarf og nálgun. Teymi FRAFL er einmitt afar þverfaglegt og mætist á jaðrinum hvað viðkemur þekkingu, áherslur og reynslu. Einnig er áhersla FRAFL að auka þverfaglega orðræðu og samvinnu, bæði milli mismunandi listgreina og stíga þannig skrefið nær því að finna nýjar leiðir og ný tækifæri innan listaheimsins.

FRAFL sýndi verk þriggja listamanna sem FRAFL hefur unnið með:

- Hin þráláta endurtekning og kúreki eftir Pál Hauk Björnsson

- Persónuleg kynning myndlsitar með Katrínu I. Jónsdóttur Hjördísardóttur og Rakel McMahon

- Jónsvaka, en kvikmyndataka var í höndum Kristínar Helgu Karlsdóttur og klipping í höndum Hákons Pálssonar.

Hér að neðan eru nokkrar myndir af fyrirlestrinum:

 
Tuesday, 18. January 2011

Samtal í Listaháskóla Íslands

FRAFL er meðal leiðbeinanda við Listaháskóla Íslands í námskeiði sem ber heitið: “Samtal”.

Samtal er sameiginlegt námskeið allra deilda Listaháskóla Íslands, þar sem nemendur starfa í hópum innan sama ramma. Á tímabilinu vinna hóparnir að samsetningu hverskonar verka, atriða, gjörninga, fyrirlestra eða uppákoma, þar sem samþætting ólíkra hugmynda og aðferða er höfð að leiðarljósi. Á tímabilinu fara fram ýmsar umræður og fyrirlestrar er tengjast námsefninu, þar sem leiðbeinendur hvers hóps leggja línurnar hvað varðar úrvinnslu og framsetningu verkefna.

Hæfniviðmið: Að nemendur geti miðlað af eigin þekkingu og reynslu; læri af öðrum nemendum, á sama tíma og þeir finni snertifleti á milli ólíkra listforma og nýti sér þá með skapandi hætti. Leitast verður við að kanna hverjir möguleikar hinna mismunandi listgreina eru þegar samtal verður á milli þeirra út frá einu sameiginlegu þema.

Hægt er að fylgjast með samtali, störfum og verkefnum hópanna hér:

http://icelanddialogue.wordpress.com/

Og hér er hægt að nálgast nánari upplýsingar um námskeiðið, sem og önnur námsekið Listahákólans:

http://lhi.is/

 
Tuesday, 18. January 2011

Innlegg vikunnar – Hlynur Hallsson

Hvenær ber SÍM skylda til þess að taka opinbera afstöðu til mála sem varða hagsmuni myndlistarmanna?

SÍM ber alltaf skylda til verja hagsmuni myndlistarmanna, þetta eru jú hagsmunasamtökin okkar.

Nú hefur þú starfað sem myndlistarmaður í Berlín, Reykjavík og á Akureyri. Hvað er ólíkt við myndlistarumhverfi þessara staða og hvað eiga þessir staðir sameiginlegt?

Munurinn á að starfa sem myndlistarmaður í Þýskalandi og á Íslandi er auðvitað margþættur. Hér er allt minna í sniðum og flestir listamenn, sýningarstjórar og safnarar þekkjast. Í Þýskalandi er náttúrulega margfalt meira að gerast og fleiri möguleikar en það er líka auðveldara að hverfa í fjöldann. Það eru vissulega bæði kostir og gallar við fámennið og eiginlega spurning um að reyna að nýta kostina á hverjum stað fyrir sig.

Eftir að hafa búið í 8 ár í Þýskalandi ákváðum við að flytja aftur til Íslands og þá til Akureyrar. Kristján Guðmundsson var einhvertíma spurður að því af hverju hann hefði flutt til Hjalteyrar eftir að hafa búið í Hollandi og hann á að hafa svarað að hann hafi viljað vera áfram í útlöndum á Íslandi.

Ísland er eins og borgríki og margir líta á að allt sem gerist í myndlist á Íslandi gerist í Reykjavík. Á Akureyri er auðvitað enn minni hópur myndlistarmanna en í Reykjavík en í samanburði við Berlín er Reykjavík bara þorp.

Fyrir okkur var mikilvægt að halda tengslum áfram við Þýskaland og niðurstaðan varð sú að leigja íbúð í Berlín og vera þar eins mikið og við getum. Það hefur gengið mjög vel upp. Reykjavík er auðvitað frábær og hefur marga kosti alveg eins og Berlín og Akureyri.

Hvernig vinnur þú sem sjálfstætt starfandi myndlistarmaður?

Ég vinn verkin mín yfirleitt fyrir ákveðnar sýningar en safna ekki upp einhverjum lager. Eða þá að ég byggi þau á hugmyndum og leita svo að heppilegum stað eða aðstæðum til að sýna á. Ég er með vinnustofu heima en í raun þarf ég ekki á vinnustofu að halda heldur dugar mér sími og tölva og svo staðurinn þar sem verkin eru sett upp.

Núna er ég að vinna að verki sem er byggt á ljósmyndum og ég er ekki búinn að ákveða hvar það verður sýnt og einnig að fánaverki sem hægt væri að setja upp á nokkrum stöðum. Samhliða geri ég textaverk og bókverk og gef út lítið tímarit. Hluti af verkum mínum sem myndlistarmanns snýst svo um að sýna verk annarra myndlistarmanna. Ég lít ekki endilega á mig í þessu sambandi í hlutverki sýningarstjóra heldur frekar sem myndlistarmanns og að þessi sýningarstjórn sé hluti af myndlistinni minni en auðvitað er það bara skilgreiningaratriði.

Ég geri ljósmyndaverk en er samt ekki ljósmyndari. Ég skrifa texta en er samt ekki rithöfundur. Ég nota vídeó en er samt hvorki leikstjóri né myndatökumaður. Ég teikna en er samt ekki teiknari. Ég geri gjörninga en er samt ekki gjörningalistamaður. Ég geri skúlptúra en er samt ekki myndhöggvari. Ég gef út tímarit en er samt ekki útgefandi. Ég set upp sýningar og vel saman listamenn en er samt ekki sýningarstjóri. Ég er bara myndlistarmaður.

Í verkum þínum og textum notar þú gjarnan ensku, íslensku og þýsku. Hvers vegna notar þú þessi þrjú tungumál?

Ég byrjaði að gera þetta þegar ég bjó í Þýskalandi og þetta lá bara beint við. Íslenska sem móðurmál mitt, þýska sem tungumálið sem maður talaði daglega og svo enska sem alþjóðlegt tungumál. Þegar ég sýndi í Texas gerði ég textana á ensku og spænsku því 70% íbúanna talaði dags daglega spænsku og sumir skildu ekki ensku. Þegar ég sýndi í Japan, þýddi ég textana á japönsku því það er ekkert gefið að allir skilji ensku. Og í t.d. Svíþjóð skrifa ég texta á sænsku. Sennilega er kínverska að verða alþjóðlegra mál en enska en ætli enskan verði samt ekki áfram alþjóðlegt mál í myndlist, eins og í viðskiptum. Í raun og veru er það ekkert prinsipp að nota íslensku, þýsku og ensku heldur laga ég það bara að aðstæðum hverju sinni nákvæmlega eins í verkunum mínum almennt þá nota ég þau efni og aðferðir sem henta í hverju tilfelli fyrir sig.

Hlynur Halssson

Myndlistarmaður

http://www.hlynur.is

http://www.hallsson.de

http://www.facebook.com/hlynur

http://youtube.com/user/hlynurhallsson

http://www.kuckei-kuckei.de

http://www.galerie-robert-drees.de