Tilkynningar

Tuesday, 14. December 2010

Innlegg vikunnar snýr aftur eftir hátíðirnar…

 
Tuesday, 7. December 2010

Innlegg vikunnar – Eirkíkur Þorláksson

2. hluti

Getur þú greint frá stöðu frumvarps til myndlistarlaga sem var lagt fram árið 2007?

http://www.althingi.is/altext/135/s/0384.html

Frumvarp til myndlistarlaga var búið að vera að gerjast hérna í ráðuneytinu í svolítinn tíma og hugmyndir þar af lútandi höfðu verið ræddar við ýmsa aðila. Hugmyndin um löggjöf um málefni myndlistar komu til í framhaldi um löggjöf á öðrum sviðum, því það eru til leiklistarlög, það eru til lög um tónlistarsjóð og um bókmenntasjóð. Þannig að það má segja að myndlistin hafi verið eina sviðið þar sem var ekki um að ræða heildarlöggjöf.

Ef við lítum til dæmis á leiklistarlögin þá er þar um að ræða sérstaka heildarlögggjöf um það listasvið og þar inn í eru ákvæði sem að snúa að Þjóðleikhúsinu. Hugmyndin um myndlistarlögin var byggð á sama grunni, það er að segja um heildarlöggjöf um þá umgjörð sem að ríkið skapaði í myndlistarmálum, með starfsemi Listasafns Íslands þar inn í og styrktarsjóði eins og á hinum sviðunum, þ.e. myndlistarsjóði, en slíkur sjóður er ekki til í dag.

Þetta frumvarp var lagt fram á Alþingi veturinn 2007-2008, og eftir 1. umræðu var því vísað til menntamálanefndar. Nefndin óskaði eftir umsögnum fjölmargra aðila um frumvarpið, og fékk til baka slíkar umsagnir frá 14 aðilum, þar sem fram kom stuðningur við frumvarpið í heild, en gerðar athugasemdir við ýmsar greinar. Frumvarpið var ekki afgreitt frá nefndinni þennan vetur, og féll þar með niður og hefur ekki verið lagt fram aftur síðan. En þetta var ef til vill góðærisdæmi, og má ætla að af því að þarna var verið að stefna í ný útgjöld þá hefur þetta ekki verið lagt fram á ný. Frumvarpið hefur verið endurskoðað og er í sjálfu sér tilbúið til framlagningar á ný ef pólitískur áhugi er á því, og það væri mögulega þess vert að setja þetta fyrir Alþingi með það í huga að skapa umræðu um þann grundvöll sem þarna var lagður til fyrir málaflokkinn. Við sjáum hvað setur. Það mætti þess vegna hugsa sér að þeim ákvæðum frumvarpsins sem stefna til nýrra útgjalda yrði bara frestað um nokkur ár eða þangað til að menn sjá til lands í þessari kreppu sem núna er, því að ég held að það sé enginn samfélagslegur stuðningur við það að stofna til nýrra útgjalda á þessum sviðum akkúrat núna.

Það er frekar vert að reyna eftir bestu getu að verja þau framlög sem fyrir eru og þar er dýrmætastur og miklivægastur launasjóður listamanna annars vegar og svo þarf að verja framlagið sem fer til Feneyjar Tvíæringsins hins vegar, því það er eðlilega alltaf spurning við gerð fjárlaga hverju á að halda áfram með og hvar á að skera niður. Einnig þarf að sjálfsögðu að verja framlög til Listasafns Íslands og safnasjóðs, sem styður við bakið á mörgum öðrum söfnum í landinu.

Hvað finst þér um styrkjamál myndlistarmanna, hvernig er opinbera styrkjakerfinu háttað nú þegar myndlistarlögin hafa ekki verið lögð fyrir?

Sú spurning sem menn hafa ekki tekið til umræðu með skilvirkum hætti er hvað hlutverk ríkisins eigi að vera gagnvart menningarlífinu, því þar geta menn farið öfganna á milli. Annars vegar er þjóðsagan um að ríkisvaldið eigi ekkert að gera fyrir menningarlífið og svo hins vegar kenningin um að ríkið eigi að moka peningum í menningarlífið; í reyndinni erum við Íslendingar þarna einhversstaðar á milli. Ég held að listamannalaun séu mjög gott dæmi um íslenska lausn sem að hjálpar mjög mörgum. Það vantar  myndlistarsjóðinn í þessa flóru þar sem aðrar skapandi greinar geta sótt um verkefnastyrki í slíka sjóði, og það væri mjög æskilegt að hann yrði til sem fyrst. Að öðru leyti þá held ég að starfsemi menningar og listar – myndlistarinnar þar með – ætti sem mest að standa á eigin fótum, þ.e. á grundvelli þeirra sem stofna til starfseminnar en ekki á grundvelli fjárframlags frá ríkinu. Það ættu þó einnig að vera til einhverjir sjóðir þar sem menn geta sótt um verkefnastyrki á þessu sviði sem öðrum.

Hugmyndin með KÍM (Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar) er sú að þangað sé veitt af ríkisins hálfu ákveðnu fé, sem að KÍM veiti þá á faglegum grunni í ferða- og verkefnastyrki til myndlistarmanna sem eru að fara að kynna sína myndlist erlendis. Það er vert að geta styrkt svoleiðis verkefni líka, en með þessari aðferð er þetta ekki ríkið eða ráðuneyti sem velur styrkþegana, heldur fagaðili – það er mikið betra að það sé fagaðili út í bæ sem úthlutar þessum peningum frekar en ríkisvaldið sjálft, vegna þess að annars er alltaf hætt á að  menn fari að vísa til einhverra annara atriða heldur en hins faglega gildis. Það eru allskonar hugmyndir í gangi um hvernig á að úthluta peningum, en ég held að þessi sé sú skásta.

Hugmyndin með Íslandsstofu er sú að að búa til eitt sóknarbartterí út á við, ekki bara með fiskinn og kindakjötið, heldur líka með menninguna og listina. Útón er til dæmis hýst þar en er þó sjálfstæð skrifstofa en þar hefur skapast mikið og gott samstarf sem nýtist báðum aðilum vel. Ekki er enn komið á hreint hvernig myndlistin mun rímast fyrir innan skipulags Íslandsstofu en að mínu mati er þetta er að einhverju leyti besta formið á þessu.

Svo eru það menningarsamningarnir við sveitarfélög um allt land, en í þeim felast framlög mennta og -menningarráðuneytis og iðnaðaráðuneytis til menningarstarfs út um allt land. Ef maður lítur yfir listana yfir styrkjaúthlutanir menningarráðanna þá saknar maður þess hve lítið er um myndlistarverkefni á þessum listum, en það held ég að sé kannski dálítið af því að myndlistamenn eru einfaldlega ekki duglegir að sækja um styrki í þessa sjóði. Það er kannski eitthvað sem að myndlistarmenn eiga eftir að læra jafn vel og tónlistarmenn og listamenn á öðrum sviðum – að koma sér út fyrir 101 Reykjavík og Seyðisfjörð, því það má stundum halda af umræðunni að þetta séu tveir helstu miðpunktar tilverunnar í myndlistinni hér á skerinu; hólminn okkar er hins vegar mun stærri, og verið að gera góða hluti vítt og breytt um landið.

Eiríkur Þorláksson

Listfræðingur og sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti

 
Wednesday, 1. December 2010

Hvatning – Atvinnuvegur stígur fram í dagsljósið

Kynningarfundur um tölulegar niðurstöður kortlagningar á hagrænum umsvifum skapandi greina í íslensku atvinnulífi var haldinn í Bíó Paradís miðvikudaginn 1. desember. Fundurinn bar yfirskriftina: HVATNING – atvinnuvegur stígur fram í dagsljósið.

Í apríl s.l. var farið í það verkefni að greina áhrif skapandi greina í íslensku hagkerfi í fyrsta sinn. Fimm ráðuneyti og Íslandsstofa fjármagna rannsóknina en rannsóknin er unnin að frumkvæði samráðsvettvants skapandi greina, sem samanstendur af helstu stofnunum innan skapandi geirans: ÚTÓN, Hönnunarmiðstöð Íslands, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Leiklistarsambandi Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, Icelandic Gaming Industry og Bókmenntasjóði.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri ÚTÓN opnaði fundinn sem var afar fjölmennur, eða hátt í 500 manna. Við tók ávarp Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra en menntamálaráðuneytið var í forsvari fyrir ráðuneytin. Lét hún orð falla um mikilvægi þess að standa vörð um menningu okkar þar sem þjóðir eru dæmdar út frá menningu, en ekki hernaðarávinning eða efnahagsyfirburðum.

Colin Mercerm, Margrét Sigrún Sigurðardóttir og Tómas Young unnu rannsóknina og kynntu Margrét og Tómas helstu niðurstöður hennar. Í forsendum rannsóknarinnar var hver atvinnuflokkur vigtaður samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þannig að í einhverjum tilfellum var einungis ákveðið hlutfall starfseminnar innan flokksins talin skapandi og var við það miðað í rannsókninni.

Sérstaklega var tekið fram að rannsóknin sýnir veltutölur sem eru byggðar á gögnum úr þremur áttum: Fjársýslu ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands, þar sem hluti ríkis og sveitarfélaga er 13%.

Gögn frá Hagstofu Íslands geyma einungis virðisaukaskattskylda veltu. Nær því rannsóknin ekki til þeirrar veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti né fellur ekki beint að veltutölum frá hinum tveimur ofangreindu áttum, þ.e. veltutölum sveitarfélaganna eða veltutölum ríkisins. Myndlist er undanþegin virðisaukaskatti og ná því gögnin ekki til veltu innan myndlistar, nema að því leyti sem um útflutning er að ræða eða veltan falli undir áðurnefndar veltutölur ríkis eða sveita.

Árið 2009 var heildarvelta skapandi greina 191 m.a. króna með 6,36% hlutfall af heildarveltu atvinnugreina á Íslandi. Heildarvelta hefur ekki aukist á milli ári en þó hefur orðið vöxtur í störfum. Um 10.000 fjölda ársverka voru innan hinna skapandi greina árið 2009 sem þýðir að um 5% Íslendinga starfa við skapandi greinar.

Katrín Júlísdóttir iðnaðarráðherra lauk fundinum með ávarpi um mikilvægi greinarinnar og dýrmæti þess að örva nýsköpun innan annarra atvinnugreina. Lauk fundinum svo að lokum með hvatningarorðumunum: “Með samstöðu og samvinnu komumst við þangað sem við ætlum”

Af tölulegum niðurstöðum rannsóknarinnar má draga þá ályktun að þar sem starfsemi undanþegin virðisaukaskatti er ekki meðtalin í gögnunum, má áætla heildarveltu skapandi greina þeim mun hærri. Má sem dæmi nefna að engar tölulegar niðurstöður liggja fyrir um veltu einstakra greina sem eru undanþegin, svo sem myndlistar, nema sem kemur að sölu hennar erlendis eða veltu sem viðkemur ríkjum og sveitarfélögum.

Afar athyglisvert væri að þeir flokkar skapandi greina sem ekki voru skoðaðir í þessari skýrslu, svo sem innlendur myndlistamarkaður, væru rannsakaðir og hagræn áhrif þeirra metin.

Tilkynning frá FRAFLara

 
Wednesday, 1. December 2010

Innlegg vikunnar – Eríkur Þorláksson

1. hluti

Hvernig kemur myndlist inn í skólamálin og sjónlistakennslu í grunnskóla?

Það hefur löngum verið talað um það í sambandi við myndlistarkennslu hér á landi í grunnskóla að hún felist í því að kenna að teikna, lita og leira en þar sé gert minna af því að kenna nemendum að skoða myndlist og meta myndlist, tjá sig um myndlist og átta sig á því hvað fellst í myndum, táknfræði og myndlæsi. Ég held þetta hafi nú breyst mikið til batnaðar. Mér fannst það allavega þegar ég var forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur á árunum 1997 – 2005 að maður fann fyrir því að kennarar með skólahópa voru að koma með það í huga að kenna nemendum að meta það sem þeir sáu. Það hefur líka orðið gífurleg breyting á síðustu 10 árum í því hvað söfnin sjálf eru orðin virk á þessum vettvangi með kennslu með móttöku skólahópa, allskonar málþingum, fræðsludagskrám o.s.frv. Þetta er stóra breytingin auk breyttra viðhorfa í kennslunni, því að þarna eru söfnin orðin miklu virkari í menningarlífinu heldur en þau voru áður og það er ótvírætt þeirra hlutverk.

Fara allir skólar í safnaheimsónir, eða fer það eftir áhuga myndmenntakennarans eða annara innan veggja skólanna?

Það fer mikið eftir áhuga skólastjóra og myndmenntakennara, að sjálfsögðu, þarna er verið að taka tíma út úr skólalífinu til þess að sinna einhverju öðru verkefni. Ég held að það sé vel þess virði fyrir skólana og nemendurna, en það er eðlilega eitthvað misjafnt á milli skóla hvað þeir gera mikið af þessu og það fer þá eftir áhuga þessara lykilpersóna, skólastjóranna og þeirra kennara sem kenna viðkomandi fög hversu vel þeir nýta tækifærin á þessu sviði.

Hvernig myndir þú lýsa íslenskri fjölmiðlaumræðu um myndlist?

Það einkennir svolítið íslenska fjölmiðlun og einnig umfjöllun um menningarmál að það sem er gert er ekki talið áhugavert fyrir íslenska fjölmiðla nema að það felist í því einhver smá hneykslishella.

Það er t.d. engin marktæk umræða um það fyrirfram hvernig sýningar verða á árinu í heildina eða spurt áhugaverðra spurninga eins og: hvers vegna voru þessar sýningar valdar? Eru þetta góðar sýningar sem eru væntanlegar eða ekki? Henta þær íslenskum almenningi, eða er þetta allt fyrir einhverja sérhópa? Það er heldur ekkert rætt um fjármál safna eða stofnana; eru þau að fá nægan pening til þess að gera það sem þau eiga að gera? Hvernig eru þau að nýta þau fjárframlög sem þau fá?  Það er náttúrulega landlægt meðal Íslendinga að væla alltaf yfir sínu hlutskipti, við vitum það. Það er í sjálfu sér eðlilegt hlutverk manna að berjast fyrir sínum stofnunum. Það á sér hins vegar aldrei stað svona víðtæk menningarumræða, þar sem menn velta því fyrir sér hvort að þessi stofnun sé að standa sig vel en þessi illa miða við aðstæður, að þarna séu almennt skemmtilegar sýningar og þarna ekki. Slík heildarumræða er voðalega lítil hér á landi, en maður sér víða dæmi um hana annarstaðar.

Eiríkur Þorláksson

Listfræðingur og sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti

http://www.menntamalaraduneyti.is/utgafuskra/

2. hluti verður birtur í næstu viku.